Fjölskyldan mótar einstaklinginn

Fjölskyldan mótar einstaklinginn Fjölskyldan er einn helsti félagsmótunaraðili barna. Það fylgir því mikil ábyrgð að ala upp börn. Börnin læra af foreldrum sínum og ef ekki er farið rétt að gæti það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það á jafnt við um fötluð börn sem og ófötluð. En hvað er góð fjölskylda? Það er mjög mikilvægt að barnið öðlist eigin reynslu og sjálfstæði. Foreldrarnir ættu ekki að vefja barnið sitt inn í bómull. Reynslan sem barnið aflar sér skiptir miklu máli. Segjum svo að barnið sé blint, köllum hann Óla. Foreldrar Óla hafa alltaf verið meðvitaðir um að drengurinn er blindur. Þau vilja ekki að hann fari sér að voða og leyfa honum því ekki að vera á hreyfingu og prófa sig áfram. Svo þegar Óli er orðinn 15 ára fer hann í fyrsta sinn í umferliskennslu. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það er fyrir Óla að uppgötva að hann geti bjargað sér sjálfur. Alla sína ævi hafði hann lifað með það að vera blindur og haldið að hann geti ekkert gert án hjálpar. En nú er hann farinn að læra á hvíta stafinn og að ferðast á eigin spýtur. Var það í raun og veru rétt af foreldrum hans að ala hann þannig upp, þ.e. vefja honum inn í bómull? Fólk talar gjarnan um „ofverndun“ og „ofdekur“. Þessi tvö hugtök fela í sér neikvæða merkingu og ná til allra. Með því að vefja Óla inn í bómull voru foreldrarnir í raun að ofvernda hann. En snúum blaðinu nú við og segjum að foreldrarnir hafi ekki vafið Óla í bómullinn. Óli fær að hreyfa sig, kynnast umhverfinu, afla sér reynslu og þekkingar og uppgötva leyndardóma lífsins. Foreldrarnir sjá aðeins um að hann fari sér ekki að voða. Svo þegar Óli er 15 ára fer hann í umferliskennslu. Fær hann eins mikið sjokk og í fyrra dæminu? Alla ævi hafði hann prófað sig áfram, öðlast sjálfstæði, lært að bera ábyrgð og lært að bjarga sjálfum sér. Umferliskennslan ætti því ekki að vera neitt mál fyrir hann Óla okkar, hann hefur lært að bjarga sjálfum sér og ekki verið alinn upp í þeirri trú að hann sé algjörlega hjálparvana. Þetta kalla ég gott uppeldi. Það er því mjög mikilvægt að fjölskyldan sé meðvituð um eigin ábyrgð. Barnið lærir af þeim fullorðnu og tekur þá gjarnan sem fyrirmynd. Foreldrarnir þurfa að vita hvað barninu er fyrir bestu og leyfa því að prófa sig áfram í lífinu, eins og kálfur sem reynir að staulast á fætur. Það ætti ekki að vera svo slæmt þó að barnið detti á rassinn, það mun fyrr eða síðar ná að staulast aftur á fætur eins og kálfurinn. Áslaug Ýr Hjartardóttir