Ályktun vegna túlkunarmála á Íslandi

Reykjavík, 1. desember 2014

Ályktun Öryrkjabandalags Íslands, Félags heyrnalausra, Fjólu félags fólks með samþætta heyrnar- og sjónskerðingu og Heyrnahjálpar um brýna úrlausn í málefnum einstaklinga sem þurfa á túlkun að halda. ÖBÍ, Félag heyrnalausra, Fjóla félag fólks með samþætta heyrnar- og sjónskerðingu og Heyrnahjálp gera kröfu til Alþingis að grípa til tafalausra aðgerða til að tryggja samfélagsþátttöku þeirra sem þurfa á túlkun að halda með því að tryggja að heildarframlög til félagslegrar túlkunar verði a.m.k. 30 milljónir króna á næsta ári. Þá hvetja félögin ráðherra til þess að koma félagslegri túlkun í þann farveg til framtíðar að öllum einstaklingum verði tryggður í lögum réttur til félagslegrar túlkunar, sbr. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Félögin hvetja ráðherra til þess að flýta þeirri heildarendurskoðun sem farið hefur fram í málaflokknum.   Greinargerð Samfélag fyrir alla Grundvallarhlutverk ríkisvaldsins er að tryggja mannréttindi og þar á meðal að koma til móts við einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda. Mannréttindi einstaklinga verða þó aldrei tryggð nema samfélögin sem þeir búa í ákveði að deila til þess fjármunum. Grundvallarmarkmiðið ætti að vera samfélag fyrir alla, samfélag án hindrana. Það er okkar skylda að tryggja að allir njóti jafnra tækifæra án tillits til þess hvort þeir búi við andlega eða líkamlega skerðingu. Einstaklingar verða oft fyrir hindrunum á lífsleiðinni. Hindranirnar hamla oft eðlilegri þátttöku í samfélaginu. Þær eru flestar yfirstíganlegar, þ.e. ef við setjum okkur það markmið að ryðja þeim úr vegi. Íslenska ríkið er bundið af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að tryggja í lögum aðstoð til þeirra sem þurfa á henni að halda, sbr. 76. grein hennar. Stjórnarskrárgreinin hefur af dómstólum verið skýrð með hliðsjón af alþjóðasamningum. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks Þann 30. mars 2007 undirritaði fulltrúi íslenska ríkisins samninginn. Við undirritun er Ísland skuldbundið til þess að vinna ekki gegn samningnum. Verkefnaáætlun innanríkisráðuneytisins gerir ráð fyrir að samningurinn verði fullgiltur næsta vor. Þá verður ríkið skuldbundið til að vinna að því að tryggja réttindi samningsins, sum í skrefum og önnur réttindi njóta verndar strax. Markmið samningsins er að allir búi við jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi. Réttindin skulu efld, varin og tryggð fyrir fatlað fólk til jafns við aðra. Samningnum er ætlað að stuðla að viðhorfsbreytingu sem felur í sér að fötlun verður við samspil einstaklings með skerðingu og samfélags. Þegar þetta samspil kemur í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku er um fötlun að ræða. Áherslan fer þá frá því að líta á fötlun sem einstaklingsbundinn þátt, heldur samfélagslegan sem samfélaginu ber að taka tillit til og vinna gegn. Því ber að tryggja öllum rétt til sömu þátttöku. Áherslan fer einnig frá því að horft sé á fatlað fólk sem viðfangsefni velferðar til þess að horft sé á alla einstaklinga sem einstaklinga með réttindi. Helstu grunnhugtökin sem reynir á hér eru: Samfélagsþátttaka. Þegar einstaklingar verða fyrir hindrunum sem koma í veg fyrir fulla samfélagsþátttöku ber ríkjum að grípa til ráðstafana til þess að vinna gegn þeim. Samskipti og tjáningarfrelsi. Öllum skal tryggður réttur til aðgangs að upplýsingum, sbr. 21. gr. samningsins. Jafnrétti. Samningurinn kveður á um jafnrétti allra og bann við mismunun. Það að taka ekki tillit til sérstöðu einstaklinga felur í sér mismunun. Sjálfsákvörðunarréttur. Allir eiga rétt á því að taka ákvarðanir um líf sitt sjálfir. Allir eiga að hafa rödd og val. Sjálfstætt líf. Allir eiga rétt á því að lifa sjálfstæðu lífi. Úr þessu má lesa að samfélagsþátttaka fyrir alla á jafnréttisgrundvelli skapar réttinn og þegar samfélagi mistekst að tryggja samfélagsþátttöku einstaklinga skapar það kröfu á að til móts verði komið við einstaklingana. Staðan á Íslandi í dag Félagslegur túlkunarsjóður Reglum um rétt til túlkunar hefur verið komið í það form að horft sé á hlutina út frá kerfinu en ekki endilega raunverulegum þörfum einstaklinga, sem eru jafn mismunandi og þeir eru margir. Hver hlluti samfélagsins er látinn bera ábyrgð á því að sinna sínu hlutverki, þegar kemur að túlkun. Menntakerfið, réttarkerfið og heilbrigðiskerfið bera hver sína ábyrgð á því að einstaklingum sé tryggð túlkun. Aðrir þættir standa þar fyrir utan og ber þá félagslegur túlkunarsjóður, sem byggir framlög sín á fjárframlögum til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskerta, ábyrgð á því að samfélagsþátttaka á öllum sviðum sé tryggð. Úthlutun úr sjóðnum byggir svo á reglum sem ekki hafa fengið opinbera staðfestingu ráðherra. Þær geta því ekki talist opinberar reglur. Tvö síðustu ár hefur umræddur sjóður til félagslegrar túlkunar tæmst nokkuð fyrir árslok og einstaklingar hafa því ekki getað tekið þátt í samfélagi með eðlilegum hætti. Er þar með brotið á rétti einstaklinga til samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Þessu verður að breyta til framtíðar. Rittúlkun Rittúlkun er annar þáttur sem ekki hefur hlotið það fjármagn eða umfjöllun stjórnvalda eins og þurft hefur. Hér skal tekið fram að grundvöllur tjáningarfrelsisins er að einstaklingar geti nýtt sér rétt sinn til að fá í hendur upplýsingar. Rittúlkun kemur til móts við hóp einstaklinga, sem ekki geta nýtt sér táknmál. Dæmi má taka af einstaklingi sem hefur lent í slysi og hlotið mikinn höfuðskaða og yrði heyrnalaus. Við tæki tími þar sem honum væri ekki tryggður réttur til þess að taka við upplýsingum með góðum hætti. Hann gæti þá átt hættu á að vera í þeim aðstæðum þar sem hans mál væru rædd eða annað án þess að geta meðtekið það sem fram færi. Rittúlkun myndi strax koma honum til góða, því þá væri hægt að miðla til hans munnlegum upplýsingum af fundum. Þetta verður að bæta. Að lokum Ljóst er að fyrirkomulagið eins og það er í dag tryggir ekki samfélagsþátttöku allra. Ekki verður heldur séð að einstaklingum sé tryggt aðgengi að upplýsingum í samræmi við 21. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Einnig má velta því upp hvort fyrirkomulagið eins og það sé í dag standist kröfur 76. gr. stjórnarskrárinnar um að réttindi þeirra sem á aðstoð þurfi að halda skuli tryggð í lögum. Ríkið getur mjög auðveldlega gripið til tímabundinna aðgerða og styrkt félagslegan túlkunarsjóð vegna táknmálstúlkunar með því að tryggja honum 30 milljóna króna framlag á ársgrundvelli, sem yrði hækkun frá því sem nú er. Þá er ekki síður mikilvægt að tryggja rittúlkun í framhaldinu. „A right delayed is a right denied“ sagði Marthin Luther King. Við gerum hans orð nú að okkar og förum því, málinu samkvæmt, fram á tafarlausar úrbætur. Ekkert um okkur án okkar, Með vinsemd og virðingu, Ellen Calmon, formaður ÖBÍ Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, formaður félags heyrnarlausra Friðjón Erlendsson, formaður Fjólu félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Daníel G. Björnsson, formaður Heyrnarhjálpar.