Lög

Lög Fjólu - félags fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

 

1.   Nafn og tilgangur:

 

1. gr. Nafn félagsins er Fjóla - félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur félagsins er að vinna að hvers konar menningar og hagsmunamálum daufblinds fólks.

3. gr. Félagið getur átt aðild að samtökum þeim, innlendum sem erlendum sem stjórn félagsins ákveður enda sé stefna þeirra og markmið í samræmi við markmið og tilgang Fjólu.

 

2.   Aðild:

 

4. gr. Fullgildur félagsmaður er hver sá sem hefur það alvarlega sjón- og heyrnarskerðingu að það hindri eðlileg samskipti við umhverfið og er orðinn 18 ára að aldri.

5. gr. Styrktarfélagi getur hver sá orðið sem vill styðja málefni  daufblindra einstaklinga. Styrktarfélagar hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum en ekki atkvæðisrétt.

Styrktarfélagar geta átt sæti í nefndum og ráðum er sinna einstökum verkefnum innan Fjólu og stjórn félagsins skipar. Styrktarfélagar eru kjörgengir til stjórnar skv. 10. gr. 5. kafla.

6. gr. Foreldri eða forsjármaður daufblinds barns sem er yngra en 18 ára getur gerst fullgildur félagsmaður með þeim réttindum og skyldum sem fullgildir félagar Fjólu hafa. Þegar barnið verður 18 ára getur foreldrið eða forsjármaðurinn orðið styrktarfélagi. Búi daufblindur einstaklingur við það mikla skerðingu að hann treysti sér ekki sjálfur til að gegna félagslegum skyldum sínum eða gæta hagsmuna sinna getur hann tilnefnt talsmann sinn sem þá nýtur réttinda fullgilds félaga. Slík tilnefning skal send stjórn félagsins og bókuð í gerðarbók.

7. gr. Hver og einn félagsmaður á að borga fullt félagsgjald eins og ákveðið er á aðalfundi.

 

3.   Félagsfundir:

 

8. gr. Almennan félagsfund skal boða með viku fyrirvara, bréflega með dagskrá. Boða skal til almenns félagsfundar ef minnst ¼ félagsmanna óska þess og senda stjórn félagsins skriflega beiðni.

 

4.   Aðalfundur:

 

9. gr. Aðalfundur hefur úrslitavald í öllum málefnum félagsins og skal hann haldinn ár hvert eigi síðar en í apríllok. Aðalfund skal boða bréflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Tillögur að lagabreytingum og ársreikningar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins eigi síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund.

10. gr. Fastir dagskrárliðir aðalfundar skulu:

a. Formaður félagsins setur fundinn

b. Kosning fundarstjóra

c. Kosning ritara

d.   Fundargerð síðasta aðalfundar lesin og borin upp til samþykktar

e.   Formaður flytur skýrslu stjórnar

f.     Ársreikningur félagsins, fyrir síðasta ár, áritaður af löggiltum endurskoðanda, kynntur og lagður fram til samþykktar

g.   Ákveðið félagsgjald og gjalddagi þess

h.   Kosning formanns og annarra stjórnarmanna auk tveggja skoðunarmanna reikninga

i.     Lagabreytingar

j.     Önnur mál

 

5.   Stjórn Fjólu:

 

11. gr. Stjórn Fjólu skal kosin á aðalfundi sbr.10.gr. Stjórnin skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara. Styrktarfélagar félagsins eru kjörgengir til stjórnar, en þó mega aðeins tveir styrktarfélagar sitja í stjórn á hverjum tíma. Formaður skal kjörinn sérstaklega og skal hann vera úr hópi fullgildra félaga. Stjórn skiptir með sér verkum að loknum aðalfundi hverju sinni, en varaformaður skal ætíð vera úr hópi fullgildra félaga. Styrktarfélagar mega gegna embættum gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Allir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn. Annað árið eru kjörnir formaður, tveir aðalstjórnarmenn  og einn varamaður, en hitt árið tveir aðalstjórnarmenn og einn varamaður.

12. gr. Stjórn Fjólu fer með málefni félagsins á milli aðalfunda. Stjórnin framkvæmir ákvarðanir aðalfunda og félagsfunda. Gerðarbók skal halda yfir fundi stjórnar.

13. gr. Stjórnin boðar til aðalfundar og undirbýr hann, leggur fyrir reikninga síðasta árs, áritaða af löggiltum endurskoðanda, hefur umsjón með eigum félagsins og gætir hagsmuna þess í öllum greinum.

 

6.   Slit félagsins:

 

14. gr. Kjósi félagsmenn Fjólu að leggja niður starfsemi félagsins eða sameinast öðru félagi þarf að ræða slíka tillögu á tveimur fundum og skal annar vera aðalfundur. Til að slíkt nái fram að ganga þarf að minnsta kosti tvo þriðju greiddra atkvæða á hvorum fundinum.

 

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi þann 15. mars 1994, á aðalfundi 28. apríl 2006 og á framhaldsaðalfundi 3. júní 2011.