Frá flugvelli til flugvallar

Aðstoð á flugvöllum er mjög mismunandi. Sjálf hef ég ferðast víða og tekið vel eftir því sem er að gerast. Ég er daufblind og í hjólastól og þarf hjálp til að komast inn í flugvélar. Mér finnst því mikilvægt að þjónusta fyrir fatlað fólk, veika og gamla sé góð á flugvöllum. Flugvellir eru stórir og gjarnan flóknir og ekkert nema sjálfsagt að fólk sem þarf fái hjálp. Ég ætla hér með að deila nýlegri upplifun minni þegar ég fór til Tyrklands og Finnlands.

Ferðin til Tyrklands var mjög löng og erfið bæði fram og til baka. Það var lagt af stað strax um morguninn og ekið frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar. Þegar þangað kom þurfti að tékka sig inn og fara í gegnum gegnumlýsingu. Svo var slórað í Fríhöfninni. Ég þurfti að fara snemma að hliðinu ef ég ætlaði að komast fyrst inn í vélina. Það komu engir menn til að hjálpa mér inní flugvélina og ekki heldur neinn sérstakur flugvélastóll sem gæti hjálpað mér inní vélina, þannig pabbi minn þurfti að halda á mér inn. Þegar allir voru komnir í vélina var lagt af stað til Arlanda i Stokkhólmi, Svíþjóð. Þar komu tveir menn að hjálpa mér úr vélinni. Svo var aftur slórað þangað til tengiflugið kom. Aftur komu tveir menn að hjálpa mér inn. Ég tók strax eftir þvi að Svíarnir vildu alltaf vita allt áður en þeir hjálpuðu, hvað þeir ættu að gera, hvernig þeir ættu að gera og hvort ég geti nokkuð staðið eða gengið? Eftir að allir voru komnir í vélina var lagt af stað til Istanbúl. Þegar hér var komið var aðstoðarkonan mín orðin veik og um leið og við lentum báðum við einn af mönnunum tveimur sem hjálpuðu mér úr vélinni hvort hann gæti keyrt stólinn minn. Sem betur fer kunni hann ensku og skildi hvað um var að vera. Ég hef nefnilega 6 sinnum millilent í Istanbúl og venjulega kunna aðstoðarmennirnir á flugvellinum ekki ensku. En sem sagt, ástandið hjá aðstoðarkonunni minni versnaði og við urðum að biðja um hjálp. Þá kom maður með rafmagnshjólastól handa henni. Ég hef séð nokkra svona stóla á þessum flugvelli, þetta er rafmagnstóll þar sem einn starfsmaður af flugvellinum stendur á palli fyrir aftan sætið og stýrir á meðan sá í sætinu situr bara og chillar. Það er alveg greinilega toppþjónusta á þessum flugvelli. En sem sagt, aðstoðarkonunni leið svo illa að það var ákveðið að kalla á lækni sem starfar á flugvellinum. Svo kom tengiflugið og tveir faglegir aðstoðarmenn komu að hjálpa mér í vélina. Þeir sögðu ekki mikið, virtust vega og meta aðstæður og voru ekkert að biðja um ítarlegar upplýsingar eins og þeir í Svíþjóð. Þetta var siðasta vélin og hún lenti í Antalya. Þjónustan þar var eins og í Istanbúl. Svo var ekið til Side, þorps sem er um 100 km frá Antalya og þar dvaldi ég í 3 vikur.

3 vikum síðar var komið að því að fara heim til Íslands. Sólin skein á heiðum himni þegar ég gekk inn á flugvöllinn í Antalya. Áður en maður tékkar sig inn á þessum flugvelli þarf að fara í gegnumlýsingu. Þar sem ég er á hjólastól þarf að leita á mér til öryggis þar sem það er málmur í stólnum. Mér til mikillar furðu vildi konan sem leitaði á mér ekki leita fyrr en ég var komin inn í lítinn klefa. Það er greinilega mikið feimnismál að leita á fólki þarna úti, venjulega þarf engan sérklefa. Eftir þetta tékkaði ég mig inn og svo tók við enn ein gegnumlýsingin. Í þetta sinn var enginn sérklefi og ég viðurkenni að ég var fegin, mér finnst frekar fáránlegt að þurfa að fara í sérklefa til að láta leita á sér. Svo beið ég í smá tíma áður en flugið kom. Tveir menn komu að hjálpa mér í vélina og svo var flogið til Istanbúl. Mennirnir sem hjálpuðu mér úr vélinni kunnu ekki ensku og voru ekki að skilja að við þyrftum að ná tengiflugi til Stokkhólms. Á endanum létu þeir pabba minn fá talstöð og hann náði samabandi við einhvern sem kunni ensku og gat hjálpað. Svo vélin og ég kvöddum Tyrkland og lagði ég leið mína til Svíþjóðar. Þar þurfti ég að bíða í 4 tíma eftir fluginu heim til Íslands. Þegar vélin kom mætti bara einn maður til að hjálpa. Það endaði með að þeir pabbi þurftu að hjálpa mér. En þegar vélin lenti á Keflavíkurflugvelli kom enginn til að hjálpa. Eftir allan lúxusinn í Tyrklandi fannst mér þetta hreint út sagt fáránlegt. Það endaði með að ein flugfreyjan og aðstoðarkonan mín urðu að hjálpa mér út. Eins og það væri ekki nóg þá kom í ljós að farangurinn var enn í Istanbúl.

þessi reynsla kenndi mér að það er misjafnt eftir hvaða flugvelli hvernig þjónusta er í boði. En ég vil benda á að á heimasíðu herflugvallarins stendur að fólk geti beðið um hjálp og að aðstoðarfólkið þar sé þjálfað. Er þetta satt eða eru þetta bara orðin tóm? Ég vil nefnilega að þjónusta á íslenskum flugvöllum sé góð svo bæði innlendir sem erlendir ferðamenn geti notið ferðarinnar til og frá og um Ísland.

Lítum nú á ferðina til Finnlands. Þetta var ekki eins löng ferð og til Tyrklands. Ekið var frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallarins. Ólíkt ferðinni til Tyrklands mættu tveir menn til að hjálpa mér í vélina. Ég verð nú samt að viðurkenna að þetta kom mér svolítið á óvart, ég hafði eiginlega ekki búist við að þeir kæmu. Auðvitað varð ég ánægð að sjá aðstoðarmennina, svona ætti þetta sko alltaf að vera, vel gert hjá ykkur á flugvellinum! Flugið til Helsinki tók 3 klukkutíma og 10 mínútur og nánast um leið og dyrnar á vélinni opnuðust mættu tveir Finnar í gulum vestum til þjónustu reiðubúnir.

Tíminn leið allt of hratt og fyrr en varði var 1 vika liðin og ég mætt aftur upp á flugvöll. Þegar ég beið við hliðið mættu tveir menn með hjólastóla til að hjálpa mér og systur minni í vélina. Ég sagði þeim að ég þyrfti nú ekki annan hjólastól. „Jájá, við hjálpum þér í vélina,“ sögðu Finnarnir bara og virtust hlakka til þess. Þeir komu mér inn í vélina sem flaug síðan heim til Íslands. Þar komu ein kona og einn maður að hjálpa mér út. Ég varð svolítið hissa að sjá konuna enda búin að venjast því að sjá tvo sterka menn. En ég var líka mjög sátt, þetta sýndi fram á að konur gætu líka hjálpað fólki inn og út úr flugvélum og þessi tiltekna kona stóð sig mjög vel. Kannski ekki beinlínis við hæfi að klæðast pilsi við þetta verkefni en svo lengi sem það er einhverja aðstoð að finna er mér sama.

Aðstoðin á Keflavíkurflugvelli er greinilega upp og niður. Þegar ég fór til Tyrklands var litla sem enga hjálp að fá en þegar ég fór til Finnlands fékk ég allt í einu hjálp. Hvort var betra? Svarið ætti að vera augljóst eða hvað? Seinna skiptið var betra því þá fékk ég aðstoð og var fljótari inn í vélina.