Finnlandsferð 2013

Þetta magnaða ævintýri hófst við kvöldverðarborðið. Foreldrar mínir virtust ræða eitthvað af miklum áhuga yfir tortillunum og þar sem ég er daufblind ákvað ég að spyrja hvað þau væru að tala um. Það var þá sem ég heyrði fyrst um sumarbúðir daufblindra ungmenna í Norðurlöndunum og áhugi minn var vakinn. Ég frétti að þessar sumarbúðir yrðu í Finnlandi í sumar og ákvað að grípa þetta stórkostlega tækifæri. Málið er nefnilega það að það eru of fáir ungir daufblindir hér á Íslandi og ég brann í skinninu að hitta annað ungt fólk í svipaðri stöðu og ég. Því hófst nú spennandi fjáröflun og endalausar skipulagningar. Fyrr en varði var ég og systir mín, sem einnig er daufblind, ásamt 2 aðstoðarkonum og 4 táknmálstúlkum flognar til Finnlands á vit ævintýranna.

Sumarbúðirnar voru í Turku og stóðu yfir í eina viku. Það var mikil stemmning þrátt fyrir að systir mín og einn annar maður hafi veikst og þurftu að fara á spítala. Ég eignaðist fljótt marga vini og skemmti mér konunglega með þeim. Dagskráin byrjaði alltaf í kringum klukkan 10 á morgnana og lauk kl 10 á kvöldin. Við fórum í eina dags ferð að sumarbústaði félags heyrnarlausra í Turku þar sem var hægt að fara í leiki og synda í sjónum. Einnig skoðuðum við kastalann í Turku, sem er rúmlega 700 ára gamall, og kíktum á markað sem var eftirlíking af markaði frá miðöldum. Þegar ég hugsa um þennan markað dettur mér helst eitt í hug, epli með súkkulaði. Ég og túlkarnir höfðum ákveðið að skreppa niður í bæ eftir markaðinn og á leiðinni þangað rákumst við á bás þar sem var verið að selja súkkulaðihjúpuð epli á teini. Auðvitað var algjört möst að prufa þetta svo ég keypti mér eitt slíkt. Fyrsta tilraunin til að bíta í eplið fór út um þúfur og það rúllaði út á kinn. Næsta tilraun gekk aðeins betur, ég náði að bíta en slapp ekki við væna slettu af súkkulaði á nefið og hina kinnina. Þegar eplið var horfið af teininum sat súkkulaðiskrímsli með ljómandi bros í hjólastólnum mínum.

Vikan leið alltof hratt og fyrr en varði var tími til kominn að fara heim. Eftir mikið stress og vandræðagang mætti leigubíllinn okkar á staðinn og tími til kominn að kveðja. Mér fannst leitt að þurfa að fara en lofaði sjálfri mér að mæta í næstu sumarbúðir sem verða eftir tvö ár í Danmörku. Svo er planið að hafa þær hér á Íslandi eftir 4 ár, þá verður sko algjört stuð og gaman!

Áslaug Ýr Hartardóttir