Fullnaðarsigur í túlkamálinu

Snædís Rán Hjartardóttir, félagsmaður Fjólu, sigraði í máli gegn ríkinu.

Snædís stefndi íslenska ríkinu fyrr á þessu ári fyrir að hafa brotið á sér með því að neita henni um nauðsynlega túlkaþjónustu. Snædís er með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og þarfnast aðstoðar táknmálstúlka í daglegu lífi. Vegna fjárskorts ríkisins hefur hún þurft að greiða fyrir þjónustuna úr eigin vasa, en hún hefur ekki fjárhagslega burði til þess.

Niðurstöður málsins voru birtar þann 30. júni síðastliðinn og taldi Héraðsdómur Reykjavíkur að ríkið hefði brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti Snædísar til túlkaþjónustu. Ríkinu var ennfremur gert að endurgreiða þann kostnað sem Snædís þurfti að greiða fyrir þjónustuna, auk þess sem henni voru greiddar miskabætur. Með dómi þessum þykir réttur heyrnarlausra og heyrnarskertra til táknmálstúlkunar staðfestur.

Áfrýjunarfresturinn rann svo út á mánudaginn, 21. júlí, og því ljóst að um fullnaðarsigur er að ræða.

Fjóla óskar Snædísi og öllum þeim sem þurfa á túlkaþjónustu að halda til hamingju með árangurinn, enda er þetta stórt skref í réttindabaráttu þeirra.

Til baka