Ályktun stjórnar Fjólu, félags fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Stjórn Fjólu - félags fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu lýsir yfir vonbrigðum yfir því að það hafa ekki verið upplýst um vinnu þá sem nú fer fram varðandi breytingar á reglugerð um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra nr. 1058/2003. Þar er verið að fjalla um eitt mikilvægasta hagsmunamál félagsmanna, þ.e. túlkaþjónustuna. Stjórn Fjólu bendir á þann ótvíræða kost sem felast í því að vinna í samráði við hagsmunahópa og notendur þannig að raunveruleg þörf þeirra sem þjónustuna fá sé höfð að leiðarljósi.

Stjórnin telur framkvæmd á túlkaþjónustu ekki í samræmi við Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem nú er unnið að innleiðingu á, en þar segir í 3. grein að meginreglur samningsins eru eftirfarandi: „að fatlaðir geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar“ (3. gr.).  Með núverandi fyrirkomulagi eru settar  hömlur á samskipti og þátttöku fólks með ófyrirséðum afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélag.

Rétt til túlkunar þarf að skilgreina sem rétt einstaklinga sjálfra og eigi ekki að skammta í samræmi við heildarþarfir þeirra sem nýta sér túlkaþjónustu Samskiptamiðstöðvar hverju sinni.

Jafnframt telur stjórn félagsins að drög að breytingum á reglugerð um Samskiptamiðstöð sem auglýstar eru á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytis taki  ekki á þeim meginvanda sem túlkaþjónustan á við að etja, sem bæði er skortur á fjármagni og menntuðum túlkum.

Stjórn Fjólu telur að það verði að breyta grundvallarhugsun við skipan túlkunarmála í landinu, þar sem lögfestur réttur einstaklinga er hafður að leiðarljósi. Við teljum að um sé að ræða grundvallarmannréttindi fólks að fá upplýsingar og taka þátt í samræðum og vera þátttakendur í íslensku samfélagi.

Stjórn Fjólu lýsir sig reiðubúna til að aðstoða opinbera aðila við þá vinnu.

Reykjavík12.1.2016 

Stjórimg11n Fjólu, félags fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu
Hamrahlíð 17
105 Reykjavík

Til baka